top of page

Markmið og hlutverk kennarans

Markmiðin geta verið háleit. Þau eru meðal annars að hjálpa nemendum að njóta tónlistar, að iðka tónlist, að kunna að meta tónlistina, að læra um tónlistina, hugtök hennar og byggingarefni, læra að tjá sig um tónlist!

Hljóðfærakennarinn hefur þá miklu ábyrgð að kenna nemendum góða tækni, tækni sem hvorki leiðir til líkamlegra kvilla né álagsmeiðsla, heldur náttúrulega og þjála tækni við að leika vel á hljóðfærið sitt. Þannig er tryggt að nemandinn komist eins langt í tónlistinni eins og hugur hans stendur til, en rekist ekki á tæknilegar hömlur sem stöðva vegferð hans. En að öðlast slíka færni krefst mikillar og stöðugrar vinnu yfir langt tímabil.

Hlutverk kennarans er líka að örva sköpunargáfu nemandans, kenna honum að njóta og meta tónlist að verðleikum. Tónlistarkennslan hefur líka samfélagsleg markmið (sjá námskrá) hún kennir nemandanum að koma fram, að sýna getu sína, mögulega að takast á við kvíða og taugaóstyrk.

 

Tónlistarkennarinn þarf að byggja upp sjálfstraust nemandans, hann þarf að gefa þeim tæki og tól til að meta frammistöðu sína á raunsæjan hátt, Hann þarf að hvetja, hann þarf að gefa innblástur, hann þarf líka helst að vera skemmtilegur (ég er reyndar ekki mjög hrifinn af þessari kröfu, tel að hún sýni ákveðna vanþekkingu á þeirri ánægju sem tónlistin veitir og því að ná árangri)

 

Tónlistarkennarinn kennir skipuleg vinnubrögð, hann kennir aga, hann sýnir nemandanum fram á að agi skapar árangur, og árangurinn er mikill ánægjugjafi í sjálfu sér. Hann ætti raunar að kenna nemandanum að kenna sér sjálfum, þannig að nemandinn verði sjálfstæður á endanum og þurfi ekki kennara!

 

Í tónlistarnáminu lærir nemandinn að hann getur náð markmiðum sínum með eftirfylgni og iðni, með því að fylgja draumum sínum, þá er hægt að ná markmiðum sínum! Til þess þarf þrautseigju, aldrei að staldra við, aldrei heldur að flýta sér!

Tónlistarkennarinn stuðlar að jákvæðri samkeppni, hann ætti ekki að hvetja til neikvæðrar samkeppni. Hann leitast við að skapa gott samfélag meðal nemenda sinna og samstarfsmanna.

 

Hann þarf að vera mjög flinkur og næmur í sambandi við mannleg samskipti. Hann þarf að vera sannfærandi. Hann þarf að fylgjast með stefnum og straumum. Hann þarf að sinna símenntun og starfsþróun. Hann þarf að vera góður að skipuleggja, því tónlistarnám er langhlaup!

 

Af hverju kenna tónlist?

Sumir segja sem svo: Þetta þarf ekki að rökstyðja, tónlistin er nægilega dýrmæt í sjálfu sér, iðkun hennar, og að njóta hennar. En þar sem það eru ekki allir sem skilja það, þá er stundum leitað rökstuðnings með að skilgreina allt það sem fylgir tónlistarnáminu, hliðarafurðir þess ef svo má segja. Þar er af nógu að taka, og rannsóknir sýna okkur sífellt fleira og fleira.

Þetta getur reyndar líka verið hvetjandi fyrir nemendur. Lítill drengur sagði eitt sinn við konuna mína sem er fiðlukennari: „Ég nenni ekki að æfa mig mikið, ég ætla ekki að verða fiðluleikari“ Lilja svaraði: „Það skiptir engu máli, ef þú ætlar að verða verkfræðingur þarftu að þjálfa heilann, það gerir þú einmitt með því að æfa fiðluleikinn“  Stráksi tók fullt mark á þessu og fór að æfa sig meira, og auðvitað fór hann að hafa meiri ánægju af náminu í kjölfarið.

Þeir sem vilja kynna sér alla bónusana sem fylgja tónlistarnámi skal bent á bókina The Music Miracle eftir Liisa Henriksson-Macaulay. 

 

Undirtitill bókarinnar er: Hið vísindalega leyndarmál um hvernig þú leysir hæfileika barnsins þíns að fullu úr læðingi! Liisa er tónlistarmaður og foreldri sem heillaðist af viðfangsefninu og safnaði saman í eina bók öllu því helsta sem hún fann um rannsóknir á áhrifum tónlistarnám á heilaþroska, gáfur, máltöku, lesþroska, félagsþroska, tilfinningaþroska, sjálfsöryggi og sjálfstraust, sköpun, stærðfræði, og hamingju! 

(Henriksson-Macaulay, 2014)

Starf píanókennarans

Starf píanókennarans

Vel flestir klassískir tónlistarmenn lenda í því fyrr eða síðar að þurfa miðla öðrum um hljóðfærið sitt, sumir hafa hlotið til þess góðan undirbúning, aðrir engan. Sumir hafa frá upphafi haft áhuga á kennslu, aðrir ekki. Sumir verða því frábærir kennarar, aðrir síðri. Það er vitað mál að engin trygging er fyrir því að snjallir hljóðfæraleikarar verði góðir kennarar, sérstaklega ef þeir hafa aldrei þurft að hafa fyrir hlutunum, eða velta fyrir sér hvernig þeir fara að því að leika á hljóðfærið sitt. Það er líka þekkt að frábærir kennarar geta kennt langt upp fyrir sína eigin getu sem hljóðfæraleikarar.

Er kennarastarfið vel metið? Það hefur verið misjafnt gegnum tíðina, einu sinni var sú goðsögn algeng að þeir sem gátu spilað áttu að verða einleikarar en hinir kennarar. Í þessu fólst einhver stjörnudýrkun á einleikurum, og víða hefur kennsla miðað að því að finna eitthvað sem kallað er „talent“ eða sérstaka hæfileikar og gera úr þeim hljóðfæraleikarastjörnur! Þetta var reyndar opinber stefna í ríkjum Austur Evrópu og enn er samkeppni mikil þar. Keppnir eru þar miklu ríkari þáttur í tónlistarnámi en víða annars staðar. Væntanlega gildir það sama víða í Asíu.

Í vestrænum heimi er hins vegar oft farið býsna langt í hina áttina.  Kennarar eiga að vera skemmtikraftar, aðalatriðið að þetta sé gaman og ekki á að gera of miklar kröfur: „Hann ætlar hvort er eð ekkert að leggja þetta fyrir sig“ !  Er það góð afsökun fyrir að gera ekki sitt besta? Ekki finnst mér það! Jafnvel gengur svo langt að í sumum tilfellum er tónlistarkennarinn orðinn einskonar félagsliði, ef til vill eina fullorðna manneskjan sem barnið á samskipti við maður á mann í heilan klukkutíma á viku!

Fyrir langa löngu voru kennarar metnir til launa til jafns við þingmenn. Þetta hefur breyst. Hins vegar hefur heyrst í umræðunni að þar sem mikil virðing sé borin fyrir kennarastarfinu og það vel metið til launa, þar sé árangurinn eftir því, er þá stundum vísað til Finnlands. 

Það eru til margs konar kennarar, það eru til góðir byrjendakennarar sem kenna ekki á efri stigum, það eru til kennarar sem bara vilja kenna lengra komnum, það eru til kennarar sem eru jafnvígir á hvorutveggja. Það eru til kennarar sem byggja upp nemendurna og sjálfstraust þeirra, það eru líka til kennarar sem brjóta það niður! Sumir kennarar hafa sérhæft sig í ákveðnum kennsluaðferðum, aðrir hafa aldrei lært neina kennslufræði, bara lært af reynslunni. Hún kennir manni margt, en enn betra er að hafa gott veganesti til að vinna úr reynslunni og til að þurfa ekki að finna upp hjólið!

Námsferli píanónemandans

 

Fyrsti tíminn getur skipt sköpum varðandi framhaldið. Mjög mikilvægt að ná góðum tengslum við nemandann!
 

Hvað ber að varast?


Slappan ritma

Klunnalegan áslátt

Slæma stöðu við hljóðfærið

Stífni

Að nemandi venjist að þurfa bara að "mæta á æfinguna"! Sem sagt ekki æfa sig heima! 

Hvernig á að byrja? Hvað ber að varast í byrjun? Hverjar eru afleiðingar slakrar kennslu?

 

Margar leiðir eru til að byrja og við ígrundum nokkrar hér síðar undir "Fyrsti tíminn".  Almennt er mín skoðun að ekki skuli einblína um of á nótnalestur strax í byrjun, heldur kynnast hljóðfærinu út frá spuna eða stuttum æfingum. 

Leggja þarf áherslu á góðan ritma frá byrjun. Stöðugan púls og nákvæman ritma. Ritma þarf að kenna eftir heyrn fremur en lestri. Hér skiptir máli hvaða tónlist börnin hafa hlustað á, bæði hvað varðar áhuga, en líka taktgetu, til dæmis hafa kennarar rekið sig á að stundum er "offbeat" auðveldara fyrir nemendur en "onbeat"!

Tilfinningu fyrir góðum áslætti og næmi fyrir hvernig tónn breytist eftir hvernig hljóðfærið er meðhöndlað skiptir miklu máli allt frá fyrsta tíma. En það er líka áframhaldandi og viðvarandi viðfangsefni næstu 10 árin!

Gott er að þjálfa frá byrjun stærri hreyfingar og frelsi við hljóðfærið.

Hvað þarf að varast? Það er verst ef nemandinn fær að leika með ónákvæmum takti, ef púlsinn fær að vera reikull, ef áslátturinn verður klunnalegur og stífur, fingurnir pota í nóturnar og festast niðri, ef tónstigar eru leiknir með handleggs snúningi, sem hindrar hraðann síðar meir. Ef fætur dingla í lausu lofti eða hanga undir stól! Ef nemandinn situr eins og rækja við hljóðfærið! Síðast en ekki síst, ef nemandinn kemst upp með að æfa sig ekki heima, þá verða framfarir mjög takmarkaðar. En þá þarf líka leiðbeina nemandanum nákvæmlega hvernig og hvað hann skuli æfa heima. Það þarf líka að vera vakandi fyrir hvað gæti mótíverað nemandann! Á hverju hann hefur áhuga! Hvernig við getum hvatt hann áfram :-)

Viðhorf kennara til kennarastarfsins

Viðhorf kennara til starfsins geta verið mjög mismunandi. Hugmyndafræði hans getur skipt miklu máli. Hugmyndafræði kennara getur verið meðvituð, en hún getur líka verið ómeðvituð.  Það eru  ýmis viðhorf og hugmyndir sem ganga í erfðir frá umhverfi og fyrri kennurum án þess að meðvituð hugsun sé að baki!

Skoðum þetta nánar.  Sumir kennarar ganga nær eingöngu út frá tónlistarlegum markmiðum í kennslu sinni, óháð persónu nemandans. Aðrir kennarar ganga út frá nemendunum, þeirra persónu, hvar þeir eru staddir og á hvaða leið þeir eru. Að þroska viðkomandi einstakling í gegnum tónlistina er þeirra markmið.

Það getur líka verið mismunandi hvort tónlistarkennararnir eru bara að hugsa um tónlistar þroskann, eða líka almennan persónuþroska einstaklingsins.  Suzuki aðferðin er með mjög skýra stefnu þarna, það er að efla þroska einstaklingsins og gera hann að betri manni. Auðvitað er mismunandi að hve miklu leyti kennarar lifa eftir þessu, en Suzuki var skýr með þetta. Margir góðir Suzuki kennarar eru góðar fyrirmyndir, leggja áherslu á hjálpsemi, að nemendur styðji hvern annan, eldri hjálpi yngri nemendum og að við leitumst við að hjálpa og þjóna meðbræðrum okkar.

Einhver sagði eitt sinn að það væri til tvær tegundir af tónlistarkennurum, þeir sem kenna til hagsbóta fyrir nemandann og þeir sem kenna sjálfum sér til framdráttar! Það eru til tónlistarkennarar sem hafa sinn eigin frama í forgangi, kenna nemendum af miklum metnaði og senda í keppnir til að efla eigin feril. Öðlast frama sem góðir kennarar. Þetta mótast af almennum viðhorfum þjóðfélagsins, og ekki síður stjórnvalda, þau hafa áhrif!

Ákveðin menning kennslufræði og tónlistarnáms hefur verið ríkjandi, ekki síst í Austur-Evrópu og gömlu Sovétríkjunum, þar sem listamenn voru aldir upp til að kasta ljóma á þjóðina, og metnaður hvers ríkis var að framleiða sem besta listamenn, ríkinu og þjóðinni til framdráttar.  Þaðan kemur e.t.v. sú árátta að leita að „talentum“ til að vinna með. En partur af þessari menningu er líka dómharka, nemendur eru sorteraðir og dregnir í dilka, rjóminn skilinn frá undanrennunni, og nemendur fá á sig ákveðinn stimpil, sem getur verið erfitt að losna við, og líka grafið undan sjálfstrausti nemandans.  Inn byggt í þetta er auðvitað samkeppni milli nemenda, sem getur verið niðurdrepandi fyrir flesta en upphefjandi fyrir örfáa.  Sama lögmál og í keppnisíþróttum, þar sem samkeppnin er aðalmálið!

Vitna í MíMI Zweig,  þar er kennt eftir mestu gæðum, en án þess að dæma.

Það er líka íhugunarvert að velta fyrir sér hinni gömlu mýtu um að sumir hafi erft sérstaka tónlistarhæfileika en aðrir ekki! Þá er gjarnan bætt við að þessi eða hinn hafi þetta frá afa sínum, eða að þetta sé í ættinni! En er það í ættinni vegna þess að þetta sé eitthvað ættgengt, eða er það vegna þess að meiri tónlist hafi verið iðkuð  og börnin hafi haft greiðari aðgang að tónlistinni? Þeir sem trúa þessu enn þá ættu að lesa bókina „Talent is overrated“ Þar segir í öðrum kafla bókarinnar - sem ber reyndar sama nafn og bókin – frá vísindamönnum sem fóru að leita að þessum svokölluðu sér tónlistarhæfileikum og rannsökuðu 257 ungmenni sem sum höfðu gefist upp í tónlistarnámi en önnur staðið sig vel og náð langt. Þeir áttu erfitt með a festa fingur á þessa hæfileika. Í stuttu máli var niðurstaðan sú að eini munurinn væri að þeir sem náðu langt æfðu sig miklu meira. Þannig kom í ljós að þeir sem höfðu náð langt voru farnir að æfa sig um tvo tíma á dag þegar þeir voru 12 ára, en hinir höfðu æft sig aðeins korter á dag.

(Colvin, 2014, bls. 17–19)

Daniel Coyle er á sama máli, en hann skrifaði bókina „The Talent Code: Greatness Isn’t Born, It’s Grown“ og „Little Book of Talent“. Hann segir:

 

Okkur er oft kennt að hæfileikar byrji sem genetísk gjöf, að þeir sem eru hæfileikaríkir (talented) geti náð árangri sem flest okkar geti aðeins látið sig dreyma um, án þess að hafa mikið fyrir því. Þetta er rangt. Hæfileikar byrja með stuttum, kraftmiklum kynnum sem tendra áhuga með því að þú tengir sjálfan þig við einstakling eða hóp sem nær miklum árangri. Þetta er kallað „tendrun“ (ignition) (hugljómun?)og örlítilli, örlagaríkri hugsun skýtur upp í kolli þínum: Ég gæti orðið einn af þeim.  (Coyle, 2012)

 

Fleiri hafa komist að sömu niðurstöðu:

„Stærstu mistök í píanókennslufræðum síðustu 200 árin var sú ályktun að „hæfileikar“ væri meðfæddir. Þetta þýddi að ekki væri hægt að kenna hæfileika. Í dag vitum við að réttar æfingaaðferðir geta gert nánast hvern sem er að „hæfileikaríkum“ píanóleikara. Ég sá þetta sífellt á hundruðum nemendatónleika og keppna sem ég hafði verið vitni að. Fullyrðingin „ þú getur ekki náð árangri án hæfileika“ þýðir að sá hinn sami veit ekki hvernig á að kenna“  (Chang, 2016, pp. 167–168)

bottom of page