top of page
Hér fyrir neðan eru nokkur myndbönd til að dýpka og skýra innihald textans

video með mismunandi hreyfingum

Þessi mynd er úr "Horneman-Schytte Klaverskole" Hún lýsir vel gömlu stöðunni þar sem eins og segir með myndinni, bara hreyfa fingurna, og kannski einmitt hátt eins og Newman minnist á.

Jafnvægi í hendinni

Fingurgómarnir

IMG-6002.jpg

Hér lýsandi dæmi um hvernig handstaðan verður þegar mið-C staðan er notuð. Er þá ekki dálítið glatað að byrja á henni? Mun betra er að byrja þar sem hendurnar eru í beinu framhaldi af handlegg, en ekki beygðar út á hlið!

Píanótækni

​Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að fara að skrifa um píanótækni. Alls kyns hugleiðingar hafa verið settar a blað, og misgáfulegar lýsingar á píanótækni! Jafnvel harðvítugar ritdeilur um píanótækni hafa átt sér stað.

Í rauninni er tómt mál að tala um að lýsa píanótækni í orðum, hana þarf að sýna. Það er hins vegar svo að því betri sem tæknin er því minna virðist viðkomandi hafa fyrir, og því erfiðara er að átta sig á hvernig í ósköpunum viðkomandi fer að!

Í þessu sambandi er gott að átta sig á að nemendur þurfa oft að byrja á stórum hreyfingum – sem síðan verða minni og verða síðar nær ósýnilegar– en eru enn til staðar í örlitlum mæli. Stóru hreyfingarnar geta þjónað því hlutverki að koma einhverjum hlutum leiktólanna í gang.

Sama er uppi á teningnum hjá kennurum sem hafa atvinnu af að laga píanóleikara sem hafa orðið fyrir meiðslum eða finna fyrir verkjum. Þeir ýkja stundum hreyfingar sem hjálpa nemendunum út úr ákveðnu hreyfingamunstri, nota til dæmis ýkta snúninga (rotatation) til að taka álag af fingrum, eða virkja nýjar hreyfistöðvar sem hafa sofið. (sbr Taubman method)

Sumir vilja meina að tæknin sé ekki til; það er áhugavert hvað Joan Pires hefur um þetta að segja:

 

"Technique does not exsist (he,he)  the technique is something, it is how we use our body, in order to produce something you want to do - and this is in every moment... changing! So because it is always changing you can´t consider it technique. It is an art of using the body. “ (leturbreyting höfundar) “ Of course you can see dancers have technique, musicians have technique, but it is our word to explain it because in the end if it is technique it is not good any more, (he,he) so I think that we approach the music and how we be an instrument of that!

 

 https://www.youtube.com/watch?v=ZIiCPjPZyYE 

 

Ofstjórnun

Það er áhugavert að stundum þegar fólk reynir of mikið að stýra og stjórna einstökum tæknihlutum þá missir það stjórnina. Dæmi: Píanóleikari ætlar að vanda sig rosalega með veikan hljóm, leika hann aðeins veikar en næst hljóm á undan, en þannig að allar nótur hljómi…! Úps – þetta er eins og að ganga á örþunnum ís! Oftast mistekst það, sérstaklega ef þú ætlar að vanda þig um of!.

 

Hins vegar ef píanóleikarinn finnur innra með sér línuna, samhengið milli hljómana (án þess að einbeita sér að hljómunum hverjum fyrir sig) þá mun örugglega ganga betur! Ef hann upplifir línuna út frá tilfinningum sínum er enn meiri líkur til að hljómarnir heppnist vel. Þetta sýnir okkur að það er hæpið að aðskilja um of tæknina frá því sem við notum hana til – að tjá okkur tilfinningalega í gegnum tónlistina.

 

Þegar við skoðum skrif um píanótækni þá sýnist mér hún bera keim af hvað kennurum finnst vanta, (kannski það sem þeim fannst vanta hjá sjálfum sér í sínu námi!)  sumir leggja ofuráherslu á fingratækni, aðrir á hlutverk þunga handleggsins. Þetta er gömul umræða og gaman að drepa niður í gömul skrif.  En áður en við förum að brjóta hlutina niður fyrst mínar persónulegu hugleiðingar.

"Slá og slaka"

Ég nota við mína kennslu núna æ og aftur setninguna: „Slá og slaka“ Að mínum dómi eru tæknileg vandamál sem trufla flæði, léttleika og hraða oftast þau að fingurnir límast um of niður í nótnaborðið. Oft eru nemendur frá upphafi að lesa beint af nótnablaðinu, fá merki um að ýta nótunni niður og halda henni hæfilega lengi. Heilinn hefur nóg að gera og hefur engan afgangstíma til að hugsa um hvernig fingurnir fara niður, hvort þeir pressi um of, hvort séu bognir eða flatir, hvað þá heldur hvort tónlistin hljómi fallega. Þegar þeir svo loksins eru búnir að gera lagið nógu oft til að kunna það nokkuð vel, þá getur verið erfitt að breyta áslætti til betri vegar, því lengi býr að fyrstu gerð! Þess vegna er líka ómetanleg fjárfesting að eyða mjög góðum tíma og vanda sig vel þegar tónstigar eru kenndir í fyrsta sinn.

Þetta kennir okkur líka að það er ekki bara nauðsynlegt að huga að hvernig fingurnir fara niður, hvernig áslátturinn er („tötsið“) heldur ekki síður hvenær  og hvernig fingurnir fara upp aftur („release“) eða ekki síður hvað gerist strax eftir að nótan er slegin. Það segir sig sjálft að það þarf mun meiri orku til að slá fallegan tón, heldur en að halda nótunni áfram niðri.

 

Þetta er hægt að finna með því að nota aðferð sem Glen Gould var alinn upp við, svokallaðri „finger-tapping“ (vantar góða þýðingu) Þegar ég las um þetta hugsaði með mér, ekki er nú öll vitleysan eins. Þetta er það vitlausasta sem ég hef vitað! En síðar prófaði ég þetta á nemendum, til að lofa þeim að finna „slá og slaka“ aðferðina, og viti menn, þetta er hreint ekki svo galið! Fínt til að kenna léttan og jafnan barrokk áslátt, eins og Glenn Gould er nú einmitt svo frægur fyrir! 

Vitna svo í Chang….

"Á hitt ber hins vegar að líta; það er engin ein leið til að spila á píanó, við erum með svo marga stíla, þurfum að geta nota svo margvíslega „liti“ að það er ekkert eitt rétt. Hlutirnir eru bara réttir nákvæmlega þar sem þeir henta best til að ná eftirsóknarverðum árangri!"

 

Þannig er ekki víst að „slá og slaka“ sé alltaf hentugust þegar við erum að spila breiðar og þykkar tónlínur Brahms, þá vill líkaminn einbeita sér að annarri hugsun, og hann fylgir eftir hendingunum, teiknar þær upp ef svo má segja.

Líkamsbeiting

 

Eðlileg og sem fyrirhafnarminnst líkamsbeiting er lykilatriði í allri hljóðfæratækni. Þar þarf góða samvinnu ótal vöðva og líkamsparta.

 

Það eru ótal margar leiðir til að búa til tón á píanóið. Við getum skoðað fingurna, hve ótal möguleika þeir hafa á mismunandi hreyfingum, svo er hægt að spila frá úlnlið, frá olnboga, frá öxl, frá mjöðm. (sjá vídeó)

Newman segir svo:

“Það vill svo til að lyfta fingrum hátt lifir enn góðu lífi sem standard aðferð meðal margra píanista, nokkuð sem má rekja aftur til Czerny og hans samtímamanna. Arnold Schultz kemst að þeirri niðurstöðu (The Riddle of the Pianist´s Finger) að betra sé að nota aðeins flatari fingur, sem best vinni með litlu vöðvum handarinnar (lumbricals) sem að tengja fingurnar við lófann, en ekki stóru vöðvana í handleggnum sem tengjast sinum bæði ofan og neðan á úlnliðnum”. 

 

Newman leggur líka áherslu á að ef grunnurinn fyrir fingrahreyfingarnar sé ekki traustur, þá sé það eins og garðyrkju maður sem reynir að skafa arfa með arfasköfu með gúmmiskafti !!    (Newman, 1974, p. 51- 52)

Þetta er reyndar eimitt sú ástæða að flestir Suzuki kennarar leggja áherslu á að halda úlnlið stöðugum og leggja áherslu á gott jafnvægi handarinnar, þannig að þyngdarpúnktur handarinnar elti fingurna. 

Nú er það svo að hægt er að lyfta fingrum hátt á margan hátt, gamla aðferðin sem verið er að visa til er líklega þar sem sem hreyfing er frá efsta lið fingursins.

Fingurgómarnir

Kataoka: "Eins og þegar þið takið eitthvað upp með hendinni, "takið" nótuna. Margir píanóleikarar gleyma að hreyfa fingurgómana (fingertips) , sem eru lifandi og geta hreyfst, og þess í stað slá þeir hljómborðið með stífum, dauðum fingrum. Á þann hátt er aðeins hægt að búa til dauðan tón." 

Boris Berman talar einnig um hve fingurgómarnir eru mikilvægir: ” “Hvort sem maður notar flata fingur eða bogna, er næmni fingurgómanna mjög mikilvæg. Fingurgómarnir þurfa að vera “vakandi”, og virkir, jafnvel í hinum veikustu og fínlegustu stöðum. Til að vitna í Natan Perelman, hin virta piano professor í Sanki Pétursborg í Rússlandi, “Sál píanistans er í fingurgómunum”

(Berman, 2002, p. 13)

Handleggir

Mörgum hættir við að sveifla örmunum, innblásnir af hinni fögru tónlist sem þeir eru að spila. Hinsvegar, til að geta varið frelsi fingranna, sem eru veikbyggðari og grennri en handleggirnir, ætti aldrei að hreyfa handleggina að óþörfu.  (Kataoka)

 

Kataoka leggur líka áherslu á að æfa sjálfstæði handanna frá unga aldri. Hér mætti skoða leiðir til að æfa sjálfstæði handanna og einnig sjálfstæði innan handanna, tildæmis þegar við þurfum að leika sjálfstæðar raddir í sömu hendi. En það bíður seinni tíma.

 

Handleggirnir gegna mikilvægu hlutverki í tónmyndun. Handleggirnir milli axla og úlnliða verða að styðja (support) fingurna svo að þeir geti gengið eða hlaupið frjálsir yfir nótnaborðið 

 

Olnboginn eða hreyfingar hans frá öxlinni hjálpa hrynjandi tónlistarinnar. Hreyfingar hans losar einnig um handleggina og vinna á móti stífni. Nánari útskýringar bíða betri tíma.

​Tækniæfingar, tónstigar og hljómar

Mikill hluti klassískrar tónlistar inniheldur tónstigarunur upp og niður eða brotna hljóma, þess vegna er mjög notadrjúgt að æfa tónstiga og hljóma, því það er efniviðurinn sem verkin eru búin til úr!

 

Hlutverk þumalfingurs

Eins og tónstigar eru spilaðir í dag, byggir á að lipurri notkun þumals til að færa sig úr einni stillingu í aðra. Eins og þeir eru spilaðir í dag segi ég vegna þess að fyrir tíma J. S. Bachs þótti þumallinn ekki par fínn. Hann var helst ekki notaður! Það er afar mikilvægt að kenna tónstiga vel og vandlega áður en vandamálin hrannast upp, því stirðir tónstigar eru afar hamlandi fyrir flæði og lipurð píanóleiksins.

 

Það sem gerist hjá dæmigerðum nemanda sem ekki hefur fengið góða þjálfun er að hann hreyfir ekki hendina fyrr en röðin kemur að þumlinum, þá snýst höndin snögglega frá úlnlið (jafnvel skýst olnboginn út frá líkamanum líka), til að snúa þumlinum á réttan stað fyrir næstu nótu. Algengt er að áslátturinn sé þunglamalegur um leið, úlnliður liggi neðarlega, og í versta falli jafnvel fingurnir beinstífir! Afleiðingin eru hnykkir í tónstiganum, sem vel heyrast, þumalfingurinn verður of hávær og tónstiginn því ójafn, fyrir utan það að það er ekki nokkur vegur að spila hraða og lipra tónstiga með þessari aðferð. Ég vil reyndar ganga svo langt að líkja þessu við fötlun!

Það eru nokkuð mörg atriði sem hafa áhrif á hversu vel tekst að láta hendina skipta um stöðu þar sem þumallinn tekur við nýrri staðsetningu.​

Í fyrsta lagi þarf þumallinn að vera lipur og mjúkur, og alls ekki stífur, svo hann geti laumað sér undir hina fingurna. Þá ber að geta þess að gamla aðferðin þar sem þumlinum var skellt á sinn stað um leið og annar fingur spilar, og geymdur inni í lófanum, þykir ekki fín í dag. Sumir ganga svo langt að kenna henni um ófarir píanista í gegnum tíðina.

 

Marilyn Taggart segir svo:

„Ég er af öllu hjarta sammála George Sandor og öðrum um að ein af ráðandi kennsluaðferðum í píanótækni, sé einnig sú sem hindrar mest lipra tækni (fluid technique) Þetta er hin algenga settu þumalinn undir til að undirbúa hreyfingu. Ekki bara að þumallinn inni í hendinni með liðina beygða skapi ranga snúningstöðu handargagnvart handlegg, heldur veldur hin skyndilega "þumallinn undir hreyfing" niðurtogi á sinar bæði annars og þriðja fingurs, sem gerir alla hendina stífa örskamma stund.“

 

Þetta er hægt að sannreyna með lítilli tilraun, prófið að hreyfa fingurna hratt með þumalinn lausan við hlið þeirra, setjið síðan þumalinn inn í hendina og reynið aftur. Tilfinningin er ekki eins þægileg.

(Adams et al., 1997, p. 100)

 

Chuan C Chang útskýrir tvær aðferðir sem hann kallar „þumall undir“ og „þumall yfir“. Þumall undir er gamla aðferðin sem flestir þekkja, en þumall yfir vill hann meina að margir kennarar, jafnvel í tónlistarháskólum hafi ekki þekkt fyrr en eftir 2010.

(Chang, 2016, p. 72)

Það sem hann kallar „þumall yfir“ er að nokkru leyti snúningsaðferð Taubman en líka í rauninni stöðuskipti án þess að þumall fari undir. Það á einkum við þegar leika þarf tónstiga mjög hratt, og ég uppgötvaði þetta þegar ég var að æfa síðasta kaflann í fyrstu fiðlu og píanósónötu eftir Beethoven þar sem leika þarf mjög hraðan tónstiga, þá er enginn tími til að fara undir með þumalinn, og best að æfa í hröðum grúppum af 123-1234-123-1234 þar sem hendin einfaldlega skiptir um stað. (sjá myndband)

Handstaðan

 

Staða handleggs og handar. Hvernig hendin vísar skiptir líka máli, best er að olnboginn leiði handlegginn, þá vísa fingurnir aðeins inn á við, og leiðin er styttri fyrir þumalinn.  (sjá myndband) 

Það að byrja með báðar hendur á mið-C eins og algengt er ekki stuðlar ekki að góðri handstöðu hjá byrjendum. (sjá mynd)

Snúningur. Örlítill snúningur arms frá olnboga  (rotation) getur hjálpað lítið eitt. Þar gengur Taubman býsna langt og mælir með að æfa mjög stóra snúninga.

 

Hér bendum við á myndbönd á youtube, með Ednu Golandsky en hún er sérfræðingur um Taubman aðferðina og skýrir hana mjög nákvæmlega.

(sjá: https://www.youtube.com/results?search_query=edna+golandsky)

 

Hún hefur líka sett saman seríu af DVD myndböndum og fræðsluefni (sjá nánar á: https://www.ednagolandsky.com/instructional-materials/ )

 

 

Undirbúningur, hendin hreyfist stöðugt í rétta átt.

Í raun eru þetta margar samhæfðar hreyfingar sem hjálpa til. Mér finnst gott að skýra þetta út með að hendin sé alltaf á hreyfingu og sé búin að undirbúa þumalinn fyrir réttan stað. Aðalatriðið er að hendin þurfi ekki að sveigja frá únlið. Þar er mjög góð æfing sem ég hef oft notað með nemendum til að laga óþarfa snúning frá úlnlið og hún er góð til að sýna hvernig best er að fara yfir þumalinn (sjá myndband)

 

Hvernig kennum við nótunar í tónstigunum?

Hér nota ég persónulega eingöngu uppgötunarnám, það er að segja læt nemendur finna hvar nóturnar liggja eftir eyra, en leiðbeini með fingrasetninguna. Mjög fáir nemendur hrökkva ekki aðeins við þegar nóta passar ekki inn í tónstigann, en e.t.v. þarf fyrst að leiðbeina um hvernig hægt er að laga hana,. Þ.e. hækka eða lækka, nota svörtu nóturnar!

 

Brotnir hljómar

Undir því samheitinu erum við bæði með brotna þríhljóma sem spanna 5und eða 6und og hljóma sem spanna áttund. Hvort tveggja er hægt að gera einfaldara tæknilega með smá kóreógrafíu.

Úlnliðsstaða – til að ná arpeggíum í hraða er oft gott að lækka úlnlið miðað við tónstigana.

Grunnatriði við Arpeggíur er að spila bundið, og það getur verið örðugt fyrir litlar hendur. Hér þarf hreyfingar til hjálpar.

 

Þegar spila þarf arpeggíur mjög hratt, þá breytist eðli hreyfinganna, úr því að snúa hendinni lítillega og reygja þumal undir, í það að hendin einfaldlega spilar hljóminn og skiptir svo um stöðu fyrir næsta hljóm. Þegar hraðinn er orðinn mikill þá hættir hvort er eð að vera heyranlegur munur á legato og leggiero.

 

Hljómalæsi 

Það er mjög mikilvægt að við séum sem kennarar dugleg að búa til tengingar milli hljóma og verkanna sem nemendur spila. Alltof oft í gegnum tíðina hafa nemendur leikið heilu sónatínurnar eða jafnvel sónöturnar og hafa varla hugmynd um í hvaða tóntegund þeir spila, hvað þá þeir séu meðvitaðir um hljómaganginn í verkinu!

 

Tónflutningur

Tónflutningur er mjög góður til að styrkja tilfinningu fyrir byggingu verkanna, hljómagangi, hvar í tónstiganum laglínan byrjar og svo mætti lengi telja.Auk þess byggir hann upp aukna tilfinningu fyrir hljómborðinu almennt.

 

Stökk og undirbúningur

Mjög gagnlegt er að æfa hröð verk hægt með hröðum undirbúningi stöðu skipta og stökka. Tæknilegt öryggi byggir jú að mjög miklu leyti á því að hendin og fingurnir með séu tilbúnir á réttum stað áður en þeir ýta snertlunum niður!

 

Legato stökk

Með hjálp handleggs og úlnliðs er hægt að stökkva nær legato, það er líka gagnlegt við að kenna áttundir, einnig samstígar sexundir og almennt að komast lipurlega milli staða á hljómborðinu. Hér er um að ræða bogahreyfingu þar sem handleggur hjálpar til og undirbýr en fingurinn skilinn eftir þar til á síðustu stundu, þá floppar hann eins og skotið sé úr teygjubyssu!! (sjá vídeó)

bottom of page