top of page

Mismunandi persónutýpur nemenda

Eitt sinn var ég að taka mig á varðandi lestrarþjálfun hjá nemendum mínum. Ég fann út að með píanóskóla sem ég ætlaði að nota til lestrarþjálfunar (gæti hafa verið Alfreds) fylgdi geisladiskur með skemmtilegum meðleik fyrir lögin.

 

Mér datt það snjallræði í hug, að til að mæla hvort nemandinn væri tilbúinn til að fara áfram í bókinni, þyrfti hann að leika lagið með diskinum í spilatímanum. Þetta gekk svo ljómandi vel, nemendur þurftu aðeins að hafa meira fyrir, en þeir kepptust um að ná lögunum nægilega vel.

 

Nema einn. Hann fór í baklás. Hann vildi ekki reyna. Hann þoldi ekki keppnir. Keppni hvatti ekki þennan nemanda til dáða, heldur fældi hann frá. Þetta opnaði augu mín fyrir hve persónuleiki nemandans getur skipt miklu. Það er líka mismunandi hvort nemendur læra best eftir sjón, eftir heyrn, eftir munstrum, eftir merkjum og svo mætti lengi telja. Það verður því að teljast gagnlegt fyrir verðandi og starfandi kennara að velta þessum hlutum fyrir sér og rannsaka.

Persónugerð kennara og nemenda getur haft áhrif á samband þeirra, sumar týpur smella saman og aðrar geta verið svolítið eins og vatn og olía eða plús og mínus! Klókir kennara reyna að átta sig á sínum eigin karaktereinkennum og nemenda sinna og ef við kennum í samræmi við persónugerðir nemenda hver veit nema við náum betri árangri?

Það er aðeins á síðari árum sem kennslufræði píanósins hefur  farið að íhuga hvernig aðferðir og skólar passa við ákveðin karaktereinkenni. Eins og einn góður kennari sagði, þú getur ekki þvingað nemandann til að passa við aðferðir þínar, þú verður að láta aðferðirnar passa við nemandann!

(Baker-Jordan, 2004, p. 202)

Greiningakerfi persónuleika

Girl in Piano Class

Það eru ýmsar aðferðir eða skemu á þessu sviði, þar má nefna:

 

  1. „Myers-Briggs Type Indicator“,

  2. „The Kiersey Temperament Sorter“,

  3.  Keith Golay's „Learning Patterns and Temperament Styles“,

  4. „VARK: A Guide to Learning Styles“ og „Anneagram“ persónuleikagreining.

 

    (Pierce, 2019)

Greiningarkerfin

honer.jpg
Keith Golay talar um fjórar aðaltýpur.

Handverkstýpuna sem er hvatvís og nýtur þess að verða fyrir áhrifum og bregðast við eins og andinn blæs þeim í brjóst, vilja ekki láta binda sig á bás, en njóta sviðsljóssins.

Forráðatýpuna sem vill alltaf vera viðbúinn öllu sem kemur, gerir það sem til er ætlast af þeim, vill tilheyra, það er hægt að stóla á þær, ávalt tilbúin að rétta hjálparhönd.

Rökrétta týpan vill vera sem hæfust, vill vera klár og geta gert vel undir hvaða kringumstæðum sem er, hún þrífst á að safna staðreyndum og vísdómi og heillast af því að leysa þrautir og vandamál. Hún leitast við að leysa vandamál á sem hagkvæmastan hátt.

Hugsjónatýpan reynir ekki að falla í fjöldann eða vera partur af heild. Heldur vill hún vera einstök og vera metin sem slík og hana hungrar eftir djúpum og merkingarbærum tengslum við fólk. Hún vill vera heiðarleg og eiga í samúðarfullum samskiptum.

Hann líkir hverri týpu við ákveðin dýr: Apinn: Handverkstýpan sem er mjög aktíf, auðvelt að æsa upp, tekur gjarna áhættu og fer jafnvel út í prakkaraskap, eru stanslaust að sjá hvar mörkin liggja.

Björninn: Forráðatýpan þar sem allt er í röð og reglu, vill vita til hvers er ætlast og nýtur þess að fara eftir reglunum, oftast séð sem góður nemandi og vill hjálpa til við húsverkin.

Uglan: Rökvísa týpan sem hungrar í fróðleik, er forvitin og spyr endalaust af hverju þetta og af hverju hitt. Þessi börn eru róleg og laus við tilfinningahita, töffarar og viljasterk .

Höfrungurinn: Hugsjónatýpan sem er næm, vingjarnleg og tilfinningaþrungin. Þau börn þurfa góðan tíma frá foreldrum og kennurum, hugsa mikið um fjölskyldumeðlimi sína og verða auðveldlega fyrir áhrifum af öðrum. Þau eru áköf og forvitin um lífið og elska fantasíur.

(Baker-Jordan, 2004)

„Enneogram“ flokkunin

Svo er það „Enneogram“ flokkunin. Hún rekur rætur sínar til grísku tölunnar níu, þar eru níu flokkar.

Sá fullkomni eða umbótasinninn sem einkum vill vera góður, sanngjarn, fullkominn og réttlátur.

 

Hjálparhellan, sá sem gefur og vill láta líka vel við sig fyrir örlæti sitt.

 

Sviðsljónið eða afreksmaðurinn sem vill vera mikilvægur og eftirsóttur vegna afreka sinna.

 

Sá rómantíski eða einstaklingshyggjumaðurinn sem vill vera einstakur og dáður sem slíkur.

 

Rannsakandinn eða  áhorfandinn sem vill vera sjálfbær með þekkingu sína og vísdóm að vopni.

 

Sá sem spyr eða efasemdarmaðurinn sem vill vera studdur og finnast hann tilheyra.

 

Ævintýramaðurinn eða eldhuginn sem nærist á nýjum upplifunum og ævintýrum.

 

Staðhæfari eða verndari sem vill njóta öryggis og vernda sitt fólk.

 

Friðarsinni og sáttasemjari sem vill lifa í friði við sjálfan sig og veröldina alla.

Allt blandast þetta svo saman í mismunandi kokkteil mannlegrar flóru.

(Pierce, 2019)

Myers og Briggs karaktervogin

Ekki batnar það nú ef við skoðum Myers og Briggs karaktervogina, þar erum við með 16 mismunandi karaktereinkenni. Hins vegar er ekki svo flókið að skoða grunninn að greiningunni, hann er byggður á eftirfarandi spurningum:

 

Hvort ertu meira fókuseraður á þinn innri heim eða ytri heim?

Hvort einbeitir þú þér fremur að einföldum staðreyndum eða túlkun þeirra og merkingu?

 

Þegar þú tekur ákvarðanir, hvort skoðar þú fremur kaldar staðreyndir og samræmi hlutanna eða fólk og kringumstæður?

 

Þegar þú átt við hinn ytri heim, vilt þú ákveða hlutina, eða vera opinn fyrir  nýjum upplýsingum og nýjum möguleikum?

 

Þegar búið er að finna þitt val í þessum fjórum flokkum er hægt að ákvarða persónu týpu þína, með fjórum stöfum sem er ávöxtur svaranna við hverri spurningu! Þetta er svokvölluð IBMT® greining.

(MBTI® Basics, n.d.)

David Keirsey

David Keirsey flokkar skapgerðir í fjóra grunnflokka (sömu og Golay talar um) og hvern grunnflokk í persónutýpur eftir IBMT greiningunni. Kenningar hans eru mjög útbreiddar og náðu vinsældum þegar hann gaf út bækurnar „Please Understand Me“ (1978) og Please Understand Me II (1998), metsölubækur seldar í milljónum eintaka. Hann notar til greininga það sem hann kallar „Keirsey Temperament Sorter®“ (KTS®)

(Keirsey, n.d.)

VARK flokkunin

Skoðum næst VARK flokkunina, hér er verið að flokka eftir hvernig fólki finnst best að læra fremur en persónutýpur. Flokkarnir eru fjórir, þeim sem finnst best að læra: 

  • Sjónrænt (myndir, myndbönd, grafísk framsetning)

  • Eftir heyrn (tónlist, umræður, fyrirlestrar)

  • Eftir lestri og skrift (gera lista, lesa texta, skrifa glósur)

  • líkamsminni (hreyfing, tilraunir, gera hlutina)

(Cherry, n.d.)

Þetta er mjög blátt áfram og getur nýst okkur við kennsluna. Í rauninni má segja að við séum oftast að nota alla þessa flokka í tónlistarnáminu, en mismikið þó.

Hér gildir að við þurfum bæði að hlúa að því sem liggur vel fyrir nemandanum en einnig að þjálfa það sem ekki liggur eins vel við hjá honum!

Og þeim sem vilja kynna sér meira bendi ég á síðuna: https://vark-learn.com/

“Life Lens, Seeing your Children in Color”

Að lokum langar mig að kynna ykkur fyrir bókinni “Life Lens, Seeing your Children in Color” eftir Michele Monahan Horner, en hún er virtur Suzuki gítar kennari sem býr í Bandaríkjunum.

Hún hefur þróað kerfi þar sem persónuleikinn er greindur út frá níu aðgreindum sviðum, þar sem blanda þeirra ákvarðar karakterlit viðkomandi. Þessi níu atriði eru:

  1. Námsstíll, hvort þau læra best með að með að hlusta, framkvæma eða horfa.

  2. þankagangur (línulegur, global, spírall) ,

  3. túlkun í orðum (Þeir sem tala fyrst, hinir sem bíða),

  4. hraði (hratt, meðalhratt, hægt)

  5. tímamörk, hvernig þau bregðast við fresti, sumir byrja strax, aðrir bíða fram á síðustu stund

  6. tímaskynjun -  rýmisvitund, sumir lífa í tíma, aðrir í rúmi

bottom of page