
Kennslufræði
Kristinn Örn Kristinsson
Fyrsti píanótíminn
Fyrsti tíminn skiptir miklu máli
og ýmsar leiðir eru færar!
Hér fyrir neðan skoðum við nokkrar sem þekktir píanókennarar hafa mælt með!
Fyrsti tíminn
James Bastien
James Basien (1934-2005) var einn af þekktustu píanó kennslufrömuðum í USA. Hann samdi ásamt konu sinni Jane Smisor píanóskóla sem margir þekkja, hann ritaði líka bókina "How to teach Piano Successfully" sem lengi hefur verið notuð til kennslu í háskólum.
Heimild: https://kjos.com/person/view?id=654

Fanny Watermann
Fanny Watermann (1920-2020) lærði hjá Matthias Tobay og Cyril Scott og var fínn píanóleikari en einbeitti sér að kennslu eftir 1950 með afburða árangri. Hún skrifaði kennslubækur og var einn af stofnendum Leeds píanókeppninnar. Hún hafði mjög ákveðnar skoðanir og taldi farsíma, rafmagnshljóðfæri og agaleysi hafa áhrif á skort á fyrsta flokks píanóleikurum.
Joan Last

Joan Last 1908-2002 var efnilegur píanóleikari en þurfti að tónleikahald á hilluna vegna meiðsla. Hún einbeitti sér að kennslu og tónsmíðum. Hún hefur samið mikið af vönduðu kennsluefni og rit um túlkun. Hún kenndi við Royal Academy of Music.
Shinichi Suzuki
.jpg)
Tim Topham

Tim er alþjóðlega þekktur tónlistarkennari, höfundur, hlaðvarpari og fyrirlesari. Hann er óþreytandi að hjálpa kennurum að hámarka virkni nemenda í gegnum sköpun, tækni og nýsköpun, ásamt því að byggja upp sjálfbær og blómstrandi píanóstúdíó. Hann er með meira en 20 ára reynslu, hefur kennt í UK og Ástralíu ólíkar námsgreinar eins og tónlist, útiveru, stærðfræði og tölvutækni, sem endurspeglar mjög breitt áhugasvið hans!
Fyrsti tíminn getur skipt sköpum fyrir framhaldið og það eru til alls konar uppskriftir að fyrsta tímanum.
Aðalatriðið er auðvitað að nemandi og kennari nái saman og byggi upp traust og þægilegt vinnusamband. Eða eins og James Bastien vitnar í Ruth Edwards: „Áhugi (eldmóður) kennarans á verkefninu framundan kemst fyrst til skila til barnsins í gegnum vingjarnleika“. (Edwards, 1970, p. 39)
Hann heldur síðan áfram: Byrjandinn sem finnur að þetta verður gaman, vill endilega koma aftur í næsta tíma. Nemandinn þarf umfram allt, hvatningu og öryggi, (reassurance). Hann verður að finna að kennarinn trúi því að hann muni ná árangri. Jafnframt því sem þessi píanó “leikur“ krefst alvöru vinnu og ábyrgðar, þá getur hann líka verið skapandi og ánægjugefandi. (Bastien, 1977, p. 155)
Sem fyrsta píanótímann gefur Bastien eftirfarandi dæmi:
Byrja á að spyrja einfaldra spurninga til að fá barninu til að líða vel. Síðan fær nemandinn bók (eða ekki) og bók fyrir verkefni.
Eftirfarandi þarf að útskýra: Hægri og vinstri hönd, landslag hljómborðsins, tvær og þrjár svartar saman.
Rétta handstöðu og spilastöðu, sýna hvernig fingurnir eigi að vera bognir. Hver tími, einnig sá fyrsti ætti að innihalda eftirfarandi fjögur atriði:
-
Lög
-
tækni,
-
blaðlestur,
-
tónfræði.
Hefðbundið væri að nota „prenótation“ fyrir lesturinn, en Bastien viðurkennir að margir vilji fresta lestrarpælingum þar til seinna.
Fyrsta tónfræðin gæti verið aðeins að átta sig á lag sé búið til úr laglínu, rytma og meðleikshljómum!
Tæknin gæti verið einfaldar æfingar eins að spila með fingrum 1-2-1-2, 2-3-2-3 o.s.frv.
Þegar hann kennir lestur er síðan mikið verið að skoða hvort nóta er endurtekin, skref eða stökk upp, skref eða stökk niður, og þá mælir hann með að nota fyrst bara skref og þríundir, það er að lesa eftir stefnu og hreyfingu laglínunnar, en ekki endilega eftir nótnanöfnum. Notar gjarna flettispjöld til að æfa nöfnin og staðsetningu nótnanna.
(Bastien, 1977, p. 155)
Fanny Watermann gefur nemendum boðorðin 10 í fyrsta tíma, aðlagar þau að vísu eftir aldri og getu, en þau eru í grundvallaratriðum þessi:
-
Sitja með beint bak og bogna fingur
-
Æfa reglulega á hverjum degi
-
Áður en byrjað er á ókunnu lagi, klappa þá taktinn og telja upphátt
-
Veldu fingrasetningu sem hentar þinni hendi, skrifaðu hana í bókina, og haltu þig við hana!
-
Æfa hendur í sitt hvoru lagi áður en þú setur saman
-
Æfa hægt áður en þú ferð í fullan hraða
-
Þegar þú æfir, leiðréttu strax öll mistök og spilaðu staðinn rétt nokkrum sinnum, áður en þú heldur áfram
-
Spilaðu öll verk í nákvæmum takti áður en þú ferð að nota rúbató eða annað frelsi í hryn
-
Farðu eftir öllum leiðbeiningum tónskáldsins
-
Hlustaðu á alla tóna sem þú framleiðir á píanóið
Hún hefur líka þann háttinn á að hún metur heimavinnuna áður en hún fer í ný verkefni, og notar umbunarkerfi, gefur bláa stjörnu fyrir 80 % og gullstjörnu fyrir 90% eða meira! Áhugavert er líka að hún mælir með að foreldrar séu með í tímum, þau geti þá aðstoðað við heimaæfingar og átt stóran þátt í framförum barnsins og ánægju af tónlistarnáminu. Þarna má kannski segja að hún sé á undan sinni samtíð. Hún segist stundum vera spurð hvernig hún velji nemendur, og þá segi hún: Helst vel ég foreldrana en ekki nemendurna!
(Waterman, 1983, pp. 10–11)
Joan Last setur upp 7 atriði sem væri hægt að fara yfir í fyrsta tímanum, þó aldur og geta spili auðvitað líka inn í þar.
-
Spjall og kynning á píanóinu, þar með talið hvernig hamrarnir virka og að hægt er að gera mismunandi tóna eftir áslætti
-
Hvernig sest er við hljóðfærið, handstaða og kynningaræfing. Hún leggur áherslu á að sitja hæfilega hátt, ekki of nálægt, leggur áherslu á að þeir tímar séu liðnir þar sem byrjendur voru einskorðaðir við fimm fingrastöðu á einum stað! Annar og þriðji fingur við svörtu nóturnar, fimmti fingur nær brúninni. Nefnir í þessu sambandi að allt of margir vilji spila of nálægt brúninni, sem veldur hnykk þegar nota þarf þumalinn, og jafnvel enn meiri vandræði þegar ná þarf upp á svörtu nóturnar, orð að sö-nnu!
-
Finna nóturnar á píanóinu. Hún notar D, auðvlt að finna milli tveggja svartra nótna, og lætur barnið finna þær allar og fljúga í fallegum boga á milli þeirra. Þetta komi í veg fyrir stífleika sem kemur af því að ýta alltaf niður! (mjög góður púnktur)
-
Þrjár litlar tækniæfingar. Hér notar hún legató æfingu, þar sem höndin gengur sem vegasalt milli tveggja samliggjandi nótna, síðan þríund, ferund o.s.frv. Þar næst hlaupa og stökkva, til að finna léttan handlegg, síðan samhljóma sexundir, langar, sem hún kallar að setjast í stól!
-
Tónheyrnaræfingar. Getur verið að láta nemandann syngja síðustu nótu lags, eða synga lag ef þau eru ófeimin, eða segja hvort kennarinn spilar upp stigann eða niður stigann (stoppað eftir hverja nótu)
-
Blaðlestur. út frá mið-C, ef nemandinn hefur náð öllu hinu!
-
Lag til að læra. Þá er það kennt utan að, sýnt, en ekki eftir nótum þar sem eins og hún segir, varla hægt að búa til áhugaverð lög úr þeim fáu nótum sem þau hafa lært!
Það má í þessu sambandi vísa á tæknibókina hennar (Freedom Technique) og líka lítil lög til að kenna utan að, með að sýna.
(Last, 2002)
Suzuki píanókennarar byrja fyrsta tímann, eins og alla aðra tíma á kveðju, kennari og nemandi hneigja sig fyrir hvor öðrum. Sú kveðja rammar inn tímann og vinnuna. Síðan er farið yfir hvernig nemandinn sest við hljóðfærið, hvíldarstaða, spilastaða, vera tilbúinn og bíða með hendi á c‘‘ (spilastaða) og spila fyrsta ritmann í Kópavogur hopp,hopp (tí-tí-tí-tí-ta-ta) Mikil áhersla er lögð á vera tilbúinn og bíða, sem er erfitt fyrir fjögurra ára barn, og þarf að þjálfa sérstaklega! Tíminn er svo brotinn upp með fingranúmeraleikjum og nótnanöfnum á hljómborðinu, og ef til vill klapp- og hermileikjum. Vel er hægt að auka þjálfunina með lagkökuforminu, það er t.d. spilastaðan vera tilbúin og svo kemur eitthvað annað, svo aftur í spilastöðuna os.fr.v. ,glöggir lesendur sjá að þetta er eins og Rondo! Lykilatriði er að sýna, láta herma eftir og fá nemandann til að hlusta.
Tim Topham lýsir fyrsta tíma svo, þar sem hann notar enga bók, frjálslega þýtt og endursagt!
Fyrst er að bjóða barnið velkomið, sýnið því herbergið, spyrja um uppáhalds sjónvarpsþáttinn þeirra, íþróttir, hvað það gerir um helgar – spjalla saman! Sem sagt kynnast aðeins nemandanum, ná tengslum sem hægt er að grípa til aftur síðar.
Af hverju píanótímar? Hvað er svona skemmtilegt við tónlist? Hvað hlusta þeir á? Hann spyr hvort þeir kunni að spila eitthvað lag (margir kunna jú allt i grænum sjó!!) og ef svo er sýnir mikinn áhuga og vinnur ef til eitthvað atriði, eða spilar með!
Hann leggur áherslu á að vera jákvæður og hvetjandi hversu slæm sem handstaðan er eða lagið. Ýmsar upplýsingar um taktskyn og fleira má af því draga! Nú þarf að hjálpa nemandanum að sitja rétt, og hann kynnir fyrir þeim Lindu maríuhænu, sem skríður um og athugar hvort hendur séu slakar og axlirnar sömuleiðis. Svo opnar hann bílskúrshurðina (þumallinn stendur) og Linda skríður undir höndina, þá ætti handstaðan að vera komin!
Sýndu mikið, krakkar elska að herma eftir! Sýndu þeim hvernig ekki eigi að gera og láttu þau leiðrétta þig! Krökkum finnst það skemmtilegt og því meir sem þú ýkir, því skemmtilegra!
Þá er komið að því að spinna á svörtu nótunum. Sýnið hvernig svörtu nóturnar raðast niður – tvær og þrjár – og láta spila tvær saman og þrjár saman upp og niður hljómborðið. Látið þau spila slitið, ekki bundið, með smá boppandi handlegg. (visar í Mini Essay 5 eftir Julie Karr til rökstuðnings)
Spilið síðan meðleiks munstur, krakkarnir hlusta og verða að finna út hvað þeir geta gert, ef þau eru feimin byrjið bara með eina eða tvær nótur. Kanna sterkt og veikt, stutt og hoppandi, hægt og hratt, - geta þau breytt eftir því, eru þau að hlusta?
Læra um mismunandi registur píanósins, hvaða dýr gæti búið uppi og hvaða dýr niðri? Velja tvö dýr og búa til sögu, t.d. fíl og maur, hvað gerist? Kannski kemur fíllin þrammandi inn, hann sér maurana skríðandi uppi í diskantinum, svo hleypur einn maurinn niður hljómborðið (glissando?), fíllinn ærist og trampar á maurnum, ENDIR!
Þá er bara að þakka nemandanum fyrir söguna og fallega tónlist, ljúka tímanum á góðum nótum, hvatningu og verkefnum næstu viku. Það er mjög gott að spyrja í lok tímans, Hvað fannst þér mest gaman í dag? Nefndu eitt atriði um tónlist sem þú hefur lært í dag!
Nú verkefnin heima eru meðal annars að kenna foreldrunum hvernig eigi að sitja við hljóðfærið og hvernig handstaðan eigi að vera.
Síðan þarf að fylgja því eftir komandi vikur og mánuði. Halda áfram að kanna spuna á svörtu nótunum. Velja 2-3 ný ólík dýr fyrir söguna. Segið söguna með píanóinu!
(Topham, n.d.)